Von be don

Magnús og Malaika leysa málið

Bergljót Baldursdóttir

Brynhildur Jenný Bjarnadóttir

Innihald

  1. Formáli
  2. Magnús og Malaika leysa málið
  3. Verkefni

Hægt er að vista bókina með því að velja „Add to Home Screen” í bæði Android og Apple iOS símum og spjaldtölvum

Prentútgáfa

Bókin Von be don er fáanleg í stórri prentútgáfu bæði í bókabúðum og á vefsíðu Eymundsson.

Við mælum eindregið með Pennanum í Hallarmúla ef ykkur langar til að skutlast eftir eintaki sjálf.

Prentkápa bókarinnar Von be don

Einnig getið þið pantað bókina beint frá útgefanda með því að senda rafpóst á [email protected]

Formáli

„Stundum kemur fyrir að mig dreymir að ég sé að tala tungumál sem er ekki enska. Orðin koma úr munni mínum en ég veit ekki hvað þau þýða, ég veit ekki hvað ég sjálfur er að segja.“

Þetta sagði Magnús Gunnar hálfbróðir minn þegar hann útskýrði fyrir mér hvernig það væri að hafa tapað niður móðurmáli sínu. Hann sagði þetta á ensku því hann talar ekki íslensku þótt foreldrar hans hafi verið íslenskir.

„Það hefur líka komið fyrir að ég kannast við söngva sem ég vissi ekki að ég kynni. Ég fór næstum því að gráta um daginn þegar ég heyrði lag á íslensku - ég veit ekki hvers vegna, ég veit ekki um hvað var sungið,“ sagði hann.

Magnús var altalandi á íslensku þegar hann flutti til Bandaríkjanna með móður sinni og stjúpföður stuttu eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Hann man ekki hvenær hann hætti að tala íslensku en man eftir því að amma hans og afi í Bandaríkjunum hvöttu hann til að tala aðeins ensku. „Á þeim tíma fannst fólki íslenska hljóma næstum því eins og þýska en auk þess þótti ekki fínt að maður giftist konu, sem átti barn fyrir og að mæðginin væru útlendingar.“

Magnús er ástæðan fyrir því að þessi bók er skrifuð og söguhetjan heitir í höfuðið á honum. Í bókinni flytur Magnús til útlanda með foreldrum sínum og lærir þar nýtt tungumál en heldur einnig áfram að læra móðumál sitt þótt aðstæðurnar séu allt aðrar en á Íslandi. Ef til vill hefði Magnús bróðir minn gengið í gegnum það sama og nafni hans í bókinni ef aðstæður hefðu verið aðrar. Sumir atburðir í sögunni og samtöl barnanna um tungumál byggjast á raunverulegum dæmum sem komu fram í rannsókn sem ég gerði þegar ég var við nám í málvísindum fyrir meira en þremur áratugum. Þá rannsakaði ég máltöku sonar míns þegar hann bætti við sig nýju tungumáli og varð tvítyngdur. Rannsóknin tók rúmlega tvö ár og voru samtöl við barnið tekin upp með reglulegu millibili og dæmi skráð í dagbækur. Henni voru síðan gerð skil í BSc ritgerð minni í sálfræði og meist- araritgerð minni í málvísindum við háskólann í Lancaster í Englandi 1984. Í upptökunum má til dæmis heyra son minn tala um líf sitt í nýja landinu, vini sína og um orðin sem hann lærði í skólanum. Þessar upptökur, sem eru ennþá til, veittu mér innblástur og eru fyrirmynd samtalanna í þessari bók.

Fjölmargir Íslendingar eru í sömu sporum og bróðir minn og sonur og vonandi fá flestir þeirra sama tækifæri og Magnús í sögunni sem átti þess kost að verða tvítyngdur. Sem fullorðinn maður er sonur minn tvítyngdur, jafnvígur á íslensku og ensku, en það var ekki alltaf þannig. Stundum hafði enska yfirhöndina og stundum íslenska og fór það eftir því hve oft hann átti þess kost að nota málin sín og rækta tvítyngið. Ef tungumál er ekki notað er nefnilega hætta á að það víki og gleymist.

Þessi bók er ætluð börnum sem eru tvítyngd eða eru á góðri leið með að verða það en einnig vona ég að hún efli áhuga allra barna á móðurmáli sínu og tungumálum almennt. Börn búa við annan veruleika nú en fyrir nokkrum áratugum. Mörg þeirra eiga heima í fjölmenningarsamfélagi og vegna internetsins heyra þau og nota frá unga aldri fleiri tungumál en móðurmálið. Bókin er gerð með þau börn í huga sem eru að byrja að læra að lesa og búa sig undir þennan fjöltyngda veruleika. Hún er skrifuð á íslensku en orð á ensku og á swahili eru kynnt til sögunnar á svipaðan hátt og gerist í dæmunum sem byggt er á. Aftast í bókinni eru nokkrar hugmyndir sem nota má til að skapa samtal milli barna og fullorðinna um tungumál og eðli þeirra.

Mamma, mamma það er gamall maður að koma í heimsókn til okkar!

Magnús var nýfluttur til Bretlands og gamli maðurinn var fyrsti gesturinn sem heimsótti þau á nýja staðnum.

„Hér er allt öðruvísi en heima á Íslandi, fólkið og húsin,“ hugsaði Magnús og leit sem snöggvast á kastalann sem var uppi á hæð skammt frá.

„Svo talar enginn íslensku hér nema ég og mamma og pabbi, allir tala ensku.“

Magnús virti manninn vel fyrir sér og sá þegar betur var að gáð að hann var ekki svo ýkja gamall.

Mamma Magnúsar og maðurinn töluðu saman á ensku. „How do you do?“ sagði maðurinn og mamma hans sagði: „Nice to meet you Albert.“

Magnús skildi ekki baun í því sem þau sögðu. „Þetta eru nú aldeilis furðuleg orð,“ sagði hann við sjálfan sig. „Um hvað ætli þau séu eiginlega að tala?“

„Ég ætla að prófa að tala ensku eins og þau,“ hugsaði Magnús með sér, vatt sér upplitsdjarfur að manninum og sagði:

„Van von be don.“

„I say! I’m flabbergasted!“ sagði maðurinn undrandi og fullur aðdáunar þótt hann hefði reyndar ekki heyrt vel hvað Magnús sagði.

„Is he speaking English already?“ spurði hann því að hann hélt að Magnús væri að tala ensku.

„Nei, nei, hann er bara að herma eftir okkur - þetta er bara þykjustu enska,“ svaraði mamma hans brosandi.

Maðurinn hét Albert Drake og bjó í húsinu við hliðina á Magnúsi. Fyrir löngu átti hann reyndar heima í kastalanum uppi á hæðinni. Mamma Magnúsar fór fram í eldhús að hita te handa Alberti og á meðan spjölluðu hann og Magnús saman.

„Ég fæddist í kastalanum því foreldrar mínir unnu hjá lávarðinum sem þar bjó,“ sagði hann. En viti menn! - Núna skildi Magnús allt sem Albert sagði, sem var eiginlega stórfurðulegt því hann var rétt að byrja að læra ensku.

Og það sem var enn furðulegra, honum heyrðist Albert tala íslensku núna en áðan þegar hann talaði við mömmu Magnúsar var hann greinilega að tala ensku.

Magnús hafði aldrei séð kastala áður því að heima á Íslandi voru engir kastalar. Hann hafði að vísu lesið um þá en í þeim sögum voru kastalabúarnir riddarar og drekar. „Kannski getur Albert sýnt mér kastalann og þá get ég svipast um eftir drekum,“ hugsaði Magnús.

Daginn eftir fór Magnús í leikskólann í fyrsta sinn.

Þar töluðu allir ensku, öll börnin og kennararnir. Hann horfði á krakkana leika sér en skildi ekki bofs í því sem þau sögðu og hann velti fyrir sér hvað hann ætti að gera?

Þá benti kennarinn honum á legókubbakassa og sagði: „Do you want to play with the bricks?“ Magnús skildi hann ekki en lét það ekki á sig fá og ákvað að byggja kastala.

Stelpa stóð álengdar og fylgdist forvitin með Magnúsi. „This is Malaika,“ sagði kennarinn. „She is from Tanzania which is a country in Africa.“

Magnús áttaði sig á því að kennarinn ætti við að stelpan héti Malaika og hann skildi líka orðið Afríka. Malaika var líka að koma í skólann í fyrsta sinn, rétt eins og hann, og hún kunni heldur ekki ensku.

„Eigum við að byggja kastalann saman?“ spurði Magnús Malaiku á íslensku. Hún virtist alveg skilja það sem hann sagði og varð fjarska glöð.

Svo sagði hún eitthvað við Magnús á swahili sem hann skildi ekki. Hann hafði þó engar áhyggjur af því og brosti til hennar.

Þegar mamma Magnúsar kom að sækja hann í skólann sagði kennarinn að Magnús hefði leikið sér við Malaiku allan daginn þótt hún tali ekki ensku, aðeins swahili.

Það hafi verið mjög gaman að fylgjast með þeim þegar þau léku sér vegna þess að þau töluðu saman á máli sem þau virtust skilja mæta vel þótt enginn annar skildi það.

„Á hvaða máli töluðuð þið saman, þú og Malaika?“ spurði mamma hans þegar þau voru á leiðinni heim. „Auðvitað á ensku,“ svaraði Magnús hróðugur.

„Dragon, dragon,“ sagði Magnús og benti í áttina að kastalanum. Hann var búinn að læra að „dragon“ á ensku þýddi það sama og „dreki“ á íslensku

Albert skildi strax hvað Magnús átti við og sagði honum að fyrir langa, langa löngu hefði dreki búið í kastalanum og drekar hefðu reyndar átt sér heimkynni í estum löndum heims til forna. Og eins og áður skildi Magnús allt sem Albert sagði; – honum fannst hann tala íslensku.

„Sumir drekarnir voru langir eins og risastórar slöngur en aðrir voru með langan hala og vængi og spúðu eldi,“ sagði Albert.

„Drekar eru mjög vitrir,“ sagði hann, „þeir búa yfir einstökum krafti og tala og skilja öll tungumál jarðarinnar, - sem skipta þúsundum.“ „Þegar dreki talar skilja allir það sem hann segir og hann skilur allt sem aðrir segja,“ sagði Albert. „Þetta er mjög sérstakt,“ hugsaði Magnús. „Alveg eins og Albert, hann skilur allt sem ég segi og ég skil allt sem hann segir þótt ég kunni ekki enn nema nokkur orð í ensku. Þetta er dularfullt.“

„Ég lenti í áflogum í skólanum í dag,“ sagði drengurinn þungur á brún. „Stór strákur sparkaði í mig og reif jakkann minn.“

„Hvernig stóð á því?“ spurði Albert.

„Við Malaika vorum að búa til kastala í sandkassanum og þá komu stórir strákar og eyðilögðu hann. Svo við bjuggum til annan en þá komu þeir aftur og eyðilögðu hann líka. Ég henti sandi í þá,“ sagði Magnús svolítið skömmustulegur. „Kennarinn kom og skammaði okkur og sagði að við værum naughty boys sem þýðir óþekkir strákar á íslensku,“ sagði Magnús.

„En við vorum ekki að hrekkja þá og þess vegna var það óréttlátt að kennarinn skammaði mig líka,“ sagði Magnús leiður á svipinn. „Sei, sei, já, þetta minnir mig á sögu um réttlæti,“ sagði Albert. „Ég skal segja ykkur hana.“

RAUÐUR DREKI OG HVÍTUR DREKI

Einu sinni fyrir langa löngu var konungur sem vildi láta reisa virki uppi á hæð. Marga daga tók að reisa virkið og þegar því var lokið var hann hæstánægður. Allt í einu heyrðust miklir skruðningar og virkið hrundi til grunna.

Konungurinn varð ösku þreifandi illur og hundskammaði smiðina sem höfðu vandað sig mjög mikið við verkið og áttuðu sig því ekki á þessum óförum. Konungurinn skipaði smiðunum að reisa virkið að nýju. Gerðu þeir það og vönduðu sig enn meira en áður, settu tvo nagla þar sem átti að vera einn til að styrkja virkið sem mest.

Þegar nýja virkið var risið hugðist konungurinn hrósa þeim fyrir vel unnið verk. Bar þá svo við að miklir skruðningar heyrðust á ný og virkið hrundi til grunna. Konungurinn varð sótrauður af reiði og lét taka smiðina fasta og varpa þeim í fangelsi. Þá koma þar að maður sem var mjög voldugur og vitur galdrakarl. Hann sagði að það hefði ekki verið smiðunum að kenna að virkið hrundi. Undir því væru tveir drekar lokaðir inni í neðanjarðarhelli, annar hvítur en hinn rauður.

Endur fyrir löngu háðu þeir harðvítugan bardaga og öskruðu þá svo hátt að allir urðu logandi hræddir. Galdrakarl var fenginn til að lokka þá inn í neðanjarðarhellinn og loka þá þar inni. „Þar berjast þeir reglulega um hvor þeirra eigi að ráða og þá nötrar hæðin svo mikið að virkið þitt hrynur,“ sagði galdramaðurinn.

Konungurinn hætti við að reisa virkið uppi á hæðinni og fékk smiðina til að reisa það annars staðar og þar stóð það öldum saman. Sagt er að rauði drekinn hafi síðar unnið þann hvíta.


„Það var ekki rétt að varpa smiðunum í fangelsi því það var ekki þeim að kenna að virkið hrundi,“ sagði Magnús. „Það var nú líka óréttlátt að loka drekana inni í neðanjarðarhellinum,“ sagði Malaika. „En það var lán að galdramaðurinn kom og útskýrði málið,“ sagði Albert.

Börnin voru nú orðin vön því að þau skildu alltaf allt sem Albert sagði og voru búin að gleyma því að það væri býsna sérkennilegt. „Eigum við kannski að heimsækja kastalann saman?“ spurði Albert börnin. Ekki þurfti að spyrja þau tvisvar að þessu því þau vildu ólm fá að skoða hann.

„Ég er viss um að það eru drekar í kastalanum,“ hvíslaði Malaika spennt. „Í skólanum í dag sagði kennarinn okkur sögu af töfradreka,“ sagði Magnús. „Það á að segja magic dragon á ensku.“ „En töfradreki er uchawi joka á swahili,“ sagði Malaika og hló þegar hún sá hvað Magnús var undrandi á því hvað móðurmál hennar væri ólíkt íslensku og ensku.

Fyrst sáu þau skjöld með mynd af fagurrauðum dreka. Albert benti þeim á skjaldarmerkið og sagði: „Þetta er einmitt drekinn í sögunni sem ég sagði ykkur í gær.“

Börnin virtu drekann fyrir sér drjúga stund. Hann kom þeim mjög kunnuglega fyrir sjónir. Þeim fannst að þau hefðu séð hann áður, fannst þau þekkja hann.

Magnús og Malaika héldu sig nálægt Alberti því það var svolítið dimmt í kastalanum.

Allt í einu sá Magnús skugga sem var alveg eins og dreki í laginu. „Þetta er undarlegt,“ hugsaði hann og leit í kringum sig til að sjá hvort skugginn væri af alvöru dreka en varð heldur betur hissa þegar hann sá að þetta var skugginn hans Alberts.

Malaika sá skuggann líka og varð eitt spurningarmerki í framan.

Magnúsi og Malaiku fannst gaman að bera saman bækur sínar um orð. Bæði kunna nú mörg orð í ensku og Magnús kann líka nokkur orð í swahili og Malaika nokkur í íslensku.

„Kastali á íslensku er það sama og castle á ensku,“ sagði Magnús. „Orðið kastali er allt öðruvísi á swahili,“ sagði Malaika. „Við segjum ngome á swahili.“ „Shadow á ensku þýðir skuggi á íslensku,“ bætti Magnús við. „Fannst þér ekki drekaskugginn hans Alberts furðulegur? Albert er maður en er samt með drekaskugga.“

Kannski sýndist okkur þetta bara vera skugginn hans Alberts,“ svaraði Malaika hugsi og Magnús bætir við: „Eða kannski er Albert í raun dreki en okkur sýnist hann bara vera maður.“

„Takk kærlega fyrir myndirnar,“ sagði Albert við Magnús og Malaiku. Þau voru komin heim til Alberts því þau ætluðu að spyrja hann um drekaskuggann sem þau sáu í kastalanum. „Heldur þú að rauði drekinn eigi ennþá heima í kastalanum?“ spurði Magnús.

REGNBOGADREKINN

Fyrir óra löngu bjó í Afríku dreki sem var langur eins og snákur. Hann var svo langur að þegar hann teygði úr sér var hann lengri en augað eygði. Stórar holur mynduðust þar sem hann hringaði sig saman og þegar hann skreið áfram skildi hann eftir sig djúpar rákir. Hann var gulllitaður en þegar sólin skein á hann var eins og hann yrði marglitur eins og regnbogi.

Fólkinu sem bjó í landinu fannst drekinn mjög fallegur en það var samt svolítið hrætt við hann vegna þess að hann var svo stór. Það ákvað að gefa honum gjafir en af því það þorði ekki að koma nálægt honum skildi það gjafirnar eftir á góðum stað og vonaðist til þess að hann sæi þær. Allt í einu bar skugga á himininn og á jörðina og drekinn birtist í öllu sínu veldi.

Hann skoðaði gjafirnar sem fókið hafði skilið eftir og það sá ekki betur en hann væri hæstánægður með þær. Fólkið og drekinn bjuggu nú í sátt og samlyndi lengi lengi. Vatn fór að renna í holurnar sem hann skildi eftir sig sem voru þá orðnar að stöðuvötnum. Einnig rann vatn eftir djúpu rákunum sem mynduðust á jörðinni þar sem hann fór og þannig urðu til vatnsmiklar ár. Þegar drekinn kom féll skuggi hans á jörðina og þá fór fólkið út og veifaði til hans. Einn góðan veðurdag tók drekinn sig á loft, flaug að stærstu holunni sem var mjög stórt stöðuvatn, og stakk sér í vatnið.

Enginn hefur séð hann síðan en fólkið telur sig stundum sjá skuggann hans á himninum þegar nýlega hefur rignt.

„Dó drekinn?“ spurði Malaika.

„Nei,“ svaraði Albert, „í Afríku eru til margar sögur um þennan dreka sem er oft kallaður regnbogadreki.“

„Hefur þú komið til Afríku?“ spurði hún. „Já, já, mikil ósköp. Ég hef heimsótt frænda minn sem býr þar oft og mörgum sinnum.“

„Er þessi frændi þinn eins og þú,“ spurði Magnús.

„Já og nei, hann er eins og ég en samt er hann allt öðruvísi.“

„Alveg eins og þið eruð eins að mörgu leyti en samt gjörólík eins og drekarnir sem ég hef sagt ykkur frá. Þeir eru sannarlega drekar en samt mjög ólíkir drekar.“

Sum orð á íslensku og ensku eru svo lík að Magnús ruglar þeim alltaf saman. „Þýðir frændi það sama og friend?“ spurði Magnús um leið og hann dáðist að því hvað drekamyndirnar á veggnum voru litskrúðugar. „Nei, frændi á íslensku merkir það sama og cousin á ensku,“ svaraði Albert.

„Frændi þinn er ættingi þinn, hann er skyldur þér en þið Malaika eruð vinir og það er það sama og friends á ensku. Orðið vinur er svo allt öðruvísi á swahili, móðurmáli Malaiku. Þá segir maður rafiki, sem þýðir vinur á swahili og er alls ekki það sama og rafvirki á íslensku.“

„Mér finnst mjög skrítið að Albert skilji allt sem við segjum, sama hvaða mál við tölum,“ sagði Magnús. „Hann virðist kunna öll tungumál jarðarinnar, rétt eins og drekar.“

„Það er líka óvenjulegt að hann sé með drekaskugga. Er hann kannski dreki?“ spurði Malaika. „Hann lítur út fyrir að vera maður,“ svaraði Magnús hugsi. „Við verðum að spyrja hann um þetta,“ sagði Malaika.

„Mér finnst leiðinlegt að það skuli ekki vera drekar og kastalar á Íslandi,“ sagði Magnús við Albert. „Hér á Englandi er rauður dreki og regnbogadrekinn á heima í Afríku, - en ég hef aldrei heyrt talað um dreka á Íslandi.“

Albert stóð upp, gekk að bókaskápnum og tók út bók sem virtist mjög gömul. „Þessi bók heitir Heimskringla og hún er eftir mann sem heitir Snorri Sturluson. Frændi minn sem býr á Íslandi lánaði mér hana og í henni er reyndar saga um dreka sem á heima á Íslandi.“ „Segðu okkur hana,“ sögðu Magnús og Malaika einum rómi og steingleymdu að þau höfðu ætlað að spyrja Albert um drekaskuggann.

LANDVÆTTIRNAR

Einu sinni fyrir langa, langa löngu hafði konungurinn í Danmörku horn í síðu fólksins sem bjó á Íslandi enda hélt hann að það talaði ævinlega illa um hann. Því ákvað hann að ráðast á landið og hertaka það en fyrst vildi hann fá að vita hve margir hermenn væru á Íslandi og hvað væru mörg herskip í flota þeirra. Hann fór á fund voldugs galdrakarls og skipaði honum að fara til Íslands og njósna um landsmenn. Galdrakarlinn breytti sér í hval og synti til Íslands.

Hann kom fyrst inn í Vopnafjörð fór úr hvalshamnum og gekk á land. Hann hafði varla stigið nokkur skref þegar hann heyrði ógurlegt öskur. Mikill dreki reis upp innarlega í dalnum, tók sig á loft og stefndi í áttina til hans. Karlinn varð dauðhræddur, breytti sér í skyndi í hval og steypti sér aftur í sjóinn.

Hann synti norður fyrir landið og setti stefnuna á Eyjafjörð. Þar steig hann á land en hafði tæpast tyllt tánum á fjöruna þegar risastór örn hóf sig á loft. Var hann svo stór að vængir hans virtust snerta fjallstindana beggja vegna dalsins. Karlinn varð afar skelkaður og stakk sér í sjóinn og breytti sér á ný í hval eins fljótt og hann gat.

Hann synti nú í suðurátt og svo inn Breiðafjörð. Þar fór hann á land og hugsaði með sér að þarna væri hvorki dreki né aðrar vættir og því gæti konungurinn siglt herskipunum sínum þangað áfallalaust. Allt í einu skyggði fyrir sólina og varð honum litið upp og sá hann þá risa stórt naut sem rak upp illilegt öskur þegar það sá hann. Varð karlinn svo hræddur að hann hljóp á harðaspretti út í sjóinn og átti fótum fjör að launa.

„Hvernig gat galdramaðurinn breytt sér í hval?“ spurði Magnús.

„Með göldrum,“ svaraði Albert. Við þetta svar rifjaðist upp fyrir þeim Magnúsi og Malaiku að þau ætluðu að spyrja Albert um drekaskuggann.

Þau litu á hvort annað og Malaika herti upp hugann og sagði „Heyrðu Albert?“

„Já,“ sagði Albert og hvessti augun á hana. Magnúsi sýndist augu hans skjóta neistum. Malaika opnaði munninn til að spyrja hann hvort hann væri raunverulega dreki en kom ekki upp nokkru orði.

Þau þögðu öll svolitla stund og þá gaf Albert þeim merki um að líta í spegilinn sem var á veggnum. Og viti menn! Í stað spegilmyndar af Alberti var rauði drekinn í speglinum og þegar Albert hreyfði sig þá hreyfðist drekinn á sama hátt.

„Flestir halda að drekar séu ekki til lengur en það er ekki rétt,“ sagði Albert „Ég er afkomandi rauða drekans sem barðist við hvíta drekann í neðanjarðarhellinum í sögunni sem ég sagði ykkur,“ sagði hann.

Magnús og Malaika ráku upp stór augu þegar hann sagði þeim að hann væri mörg hundruð ára gamall og að hann hefði beitt göldrum til að breyta sér þannig að hann liti út eins og maður. „En galdurinn nær, því miður, hvorki til skugga né spegilmynda,“ sagði hann. „Það hlaut að vera að þú værir dreki. Við skildum alltaf allt sem þú sagðir,“ sagði Magnús. „Við vissum nefninlega að drekar skilja og tala öll tungumál.“

Albert sagði nú Magnúsi og Malaiku að þau væru einu manneskjurnar í heiminum sem vissu að hann væri dreki og upp frá því urðu Malaika frá Tansaníu, Magnús frá Íslandi og breski drekinn Albert, sem býr meðal manna í dulargervi, bestu vinir.

Umræðuefni

1. Hljóð og merking orða.

Þegar barn líkir eftir tungumáli æfir það sig í að bera fram orð og hljóð og um leið þjálfar það hlustun.

Hér má ræða um „þykjustu-ensku“ og um móðurmál barnsins. Hvað er þykjustu-enska? Getur barnið talað þykjustu-ensku?

2. Enskukennsla.

Í bókinni koma fyrir orð og setningar á ensku og hana má því nota til að kynna það tungumál fyrir börnunum. Á bls. 2 koma fyrir setningarnar. „How do you do?“, „Nice to meet you“ og „flabbergasted“. Veit barnið hvað þetta þýðir?

3. Að telja.

Það getur verið skemmtilegt og gagnlegt æfa sig að telja á fleiri en einu tungumáli.

Getur barnið talið krakkana á myndinni á bls. 6? Hve margar stelpur eru þar og hversu margir eru strákarnir? Getur það talið krakkana líka á ensku? Ef barnið á annað móðurmál en íslensku eða ensku, hvernig á að telja krakkana á því tungumáli?

4. Enskukennsla

Kennarinn sagði á ensku: „Do you want to play with the bricks?“ Veit barnið hvað það þýðir?

5. Lönd og tungumál.

Ekki er vitað með vissu hve mörg tungumál eru töluð í heiminum nú á dögum en talið er að þau séu hátt í sjö þúsund. Mjög mörg tungumál eru töluð í Afríku og flestir sem þar búa eru fleirtyngdir. Hér má ræða um lönd og tungumál.

Hvar er enska töluð og hvar íslenska? Ef barnið á annað móðurmál en íslensku eða ensku, hvar er það mál talað? Hvað veit barnið um Afríku?

6. Samhengi orðanna.

Það getur verið gaman að tala „útlensku“, æfa hljóð, framburð og hlustun en merking orða felst ekki aðeins í þeim sjálfum heldur einnig í samhenginu og aðstæðum. Getur barnið ímyndað sér hvað Magnús og Malaika sögðu á þykjustu-ensku.

7. Orðin dreki og kastali.

Börn læra merkingu orða með því að nota þau. Að bera saman orð á ýmsum tungumálum skerpir skilning og athygli barnanna.

Þekkir barnið orðin „dragon“ á ensku og „dreki“ á íslensku og orðin „castle“ og „kastali“?

8. Hugtakið réttlæti.

Fyrsta drekasagan er um réttlæti og ranglæti. Rauði drekinn kemur til sögunnar og því gefst tækifæri til að ræða um hvernig á að segja „rauður“ á íslensku og ensku. Hvað finnst barninu um söguna? Er það sammála Magnúsi og Malaiku um hvað sé réttlátt og hvað ranglátt? Veit barnið hvernig á að segja „rauður“ á ensku? Hvernig á að segja rauður á móðurmáli barnsins ef það er annað en íslenska eða enska?

9. Orðin sverð, skjöldur, töfrar og skuggi.

Það getur verið gaman að búa til eitt orð úr tveimur, t.d. töfra-dreki, dreka-skuggi, töfra-kastali, dreka-stafur. Þetta má gera á ensku og ýmsum öðrum málum. Þekkir barnið orðin „sverð, skjöldur, skuggi eða töfrar“ á íslensku og „sword, shield, shadow og magic“ á ensku? Getur það einnig sagt einhver þessara orða á einhverju öðru tungumáli?

10. Hugtökin líkur og ólíkur.

Orð eru lík og ólík, fólk getur verið líkt og ólíkt og drekar ekki síður. Rauði drekinn og regnbogadrekinn eru báðir drekar en mjög ólíkir. Hægt er að æfa lík og ólík orð með því að finna orð sem ríma saman og þau sem ríma alls ekki saman.

Hvað finnst barninu um regnbogadrekann? Hvernig er hann á litinn? Er hann ólíkur rauða drekanum? Hvað er líkt með rauða drekanum og regnbogadrekanum? Eru Magnús og Malaika lík? Eru þau ólík? Geta þau verið bæði lík og ólík?

11. Orðin vinur og frændi.

Auðvelt er að rugla saman orðunum „frændi“ á íslensku og „friend“ á ensku.

Þekkir barnið orðin „friend“ og „cousin“ á ensku? Eru ensku orðin lík eða ólík íslensku orðunum sem merkja það sama? Getur barnið búið til orð sem hljóma eins og ensku orðin tvö?

12. Orðið grár og íslenska orðið landvættur.

Þriðji drekinn er ólíkur hinum tveimur. Halda má áfram að ræða við barnið um að einhver líkist eða líkist ekki öðrum. Hér gefst einnig tækifæri til að ræða litinn á drekunum, hörundslit barnanna og litaraft og um merkingu orða eins og landvættir og afkomandi.

Hefur barnið áður heyrt um landvættirnar og íslenska drekann? Hvernig er hann á litinn? Veit barnið hvernig á að segja „grár“ á ensku? Hvernig á að segja „grár“ á móðurmáli barnsins ef það er annað en íslenska eða enska? Er hann líkur eða ólíkur rauða drekanum og regnbogadrekanum?

Kaupið bókina

Ef þið hafið haft gaman af rafútgáfu bókarinnar Von be don þá er hún einnig fáanleg í stórri prentútgáfu bæði í bókabúðum og á vefsíðu Eymundsson.

Við mælum eindregið með Pennanum í Hallarmúla ef ykkur langar til að skutlast eftir eintaki sjálf.

Prentkápa bókarinnar Von be don

Svo getið þið pantað bókina beint frá útgefanda með því að senda rafpóst á [email protected]